Thursday, March 31, 2011

Notorious


Myndin er um líf rapparans fræga Christofer Wallace, betur þekktur sem Notorious B.I.G. og fer með áhorfandann í gegnum allt líf hans, allt frá æsku hans, hvernig þessi saklausi skóladrengur frá Brooklyn kom sér í dópheiminn og endaði sem einn besti og frægasti rappari allra tíma. Notorious notaði allar sínar stundir í æsku til að semja texta og sýndi snemma afburðahæfileika í rappkeppnum á götum Brooklyn. Græðgin fyrir peningum og glingri leiddi hann síðan í dópheiminnn þar sem hann seldi ótakmarkað krakk á götunum áður en hann og vinur hans voru teknir af löggunni fyrir ólöglegan vopnaburð. Annarhvor varð að taka á sig sökina og fara í fangelsi fyrir einu byssuna sem löggann fann og tók vinur hans það á sig því Wallace átti meiri möguleika í lífinu í rappheiminum. Eftir þetta atvik tileinkaði Wallace sér rappi og tók sér listamannsnafnið Biggie Smalls eða Notorious B.I.G. og með hjálp Sean Combs, betur þekktur sem P Diddy, tóku þeir rappheiminn undir sig. Þegar á toppinn er komið steðjar hættan að því leiðin liggur aðeins niður af við þaðan. Eftir tryllta skotárás á helsta keppinaut og vin hans, Tupac þá er hann síðan sakaður um að standa á við hana og hefst þá mikill rígur milli þeirra og því myndaðist einnig mikill rígur milli austurstrandarinnar (east side) ,sem Biggie stóð fyrir, og vesturstrandarinnar(west side), sem Tupac stóð fyrir. Eftir að Tupac er síðan myrtur stuttu síðan verður rígurinn mun meiri sem endar með því að Biggie er skotinn til bana í bílnum sínum.
Mér fannst myndin mjög góð og tónlistin í myndinni var væntanlega öll eftir Biggie sem fékk mig til að meta hann mikils sem tónlistarmanns. Nokkur atriði í myndinni stóðu uppúr. Eitt var það þegar Biggie var ennþá á sínum skólaárum og kennarinn sagði honum að ef hann myndi halda svona áfram á þeirri braut sem hann var á myndi hann enda sem sorpumaður. Í næsta tíma sneri Biggie aftur og útskýrði fyrir kennaranum og jafnframt öllum bekknum að sorpumenn fá betri laun og þar af leiðandi yrði hann betur staddur í lífinu en sjálfur kennarinn ef hann myndi enda sem slíkur. Í myndinni var skaðað orðspor rapparans lil kim sem var ekki sátt með gerð þessarar myndar og hvernig hún kom fram í henni.
Mjög góð mynd sem allir rappáhugamenn ættu að kynna sér.

Seven


Myndin er um tvo rannsóknarlögreglumenn, Sommerset og Mills, sem fá það starf fyrir hendur að leita að raðmoringja sem réttlætir gjörðir sínar á þeim grundvelli að fólk sé að hunsa 7 dauðasyndir manna og að hann sé frelsarinn sem fær skilaboð frá Guði til að gera þessar gjörðir. Mills og Sommerset rannsaka málið með tveimur mismunandi sjónarmiðum. Á meðan Sommerset reynir að skilja ástæðuna fyrir morðunum, þá er Mills að reyna að skilja hvað morðinginn er að hugsa og reynir að lesa út hvað hann tekur sér næst fyrir hendur. Myndin er uppbyggð þannig að eitt morð er tekið fyrir í einu og morðinginn hefur skilið eftir skilaboð um hvaða dauðasynd er að ræða. Síðan vinna Mills og Sommerset saman í að rannsaka málið þangað til þeir frétta af öðru morði. Þannig gengur myndin áfram í gegnum allar 7 dauðasyndirnar með svakalegum afleiðingum.
Það sem mér fannst mjög gott við myndina var sambandið á milli Mills og Sommerset en þeir voru mjög ólíkar týpur með mismunandi sjónarmið á hlutunum og í byrjun var sambandið á milli þeirra mjög stormasamt en þegar leið á myndina urðu þeir mun meiri félagar og skildu hvorn annan vel. Sommerset var ungur,æstur og metnaðarfullur meðan Mills var rólegur, yfirvegaður og hokinn af reynslu. Það var því fullkomið hlutverk fyrir Morgan Freeman sem er snillingur að leika áðurnefndan karakter en því er hann alls ekki óvanur. Það sem mér fannst einnig gott við myndina var síðasta morðið þar sem morðinginn notar sjálfan sig sem beitu til þess að tæla Sommerset í að ljúka við ætlunarverk sitt. Þá koma síðustu tvær dauðasyndirnar til sögu, öfund og reiði. Það var mjög átakanlegt atriði.
David Fincher svíkur engann með þessari frábæru mynd sem ég mæli eindregið með.

The Big Lebowski


Mynd fjallar um Jeffrey Lebowski sem kallar sig ,,The dude'' sem er ruglað saman við annan Lebowski sem er milljónarmæringur og sagt honum að borga stóra skuld sem hann veit ekkert um. Þegar The Dude áttar sig á þessum miskilning fer hann á fund með nafna sínum sem vill ekkert skipta sér af þessum málum og rekur hann út. Nokkru seinna fær The dude boð um að snúa til baka til nafna síns. Þar segir hann frá mannráni á konu sinni og sýnir honum miðann sem hann fékk um lausnargjald. Hann fær The dude til að taka að sér að hitta þessa mannræningja með lausnargjaldið og fá konuna sína lausa. The dude fær þá hugmynd í kollinn að kona hans hafi líklega rænt sér sjálf fyrir peningana en fær engu að síður keilufélaga sína sem eru einkar skrautlegir með í þetta verkefni. Þeir ná að klúðra þessu verkefni á afar misheppnaðan hátt og hefst þá stórskemmtileg atburðarrás út restina af myndinni með furðulegum afleiðingum. Mér fannst myndin mjög góð og aðalástæðan fyrir því er aðalpersónan ,, The Dude'' sem Jeff Bridges leikur mjög vel. Það eina sem ,,The Dude'' gerir í lífinu er að slaka á og spila keilu. Fatasmekkurinn hans er mjög furðulegur þar sem hann klæðist náttsloppi sem hann fer aldrei úr. Það skiptir ekki máli hvort hann sé að spila keilu eða er í lífshættu því hann nær alltaf að vera jafn afslappaður.
Myndin fékk ekki góða dóma þegar hún kom fyrst út en með árunum fóru kvikmyndaáhugamenn að sjá gæðin við þessa mynd og er hún nú stimpluð sem ,,költ'' mynd í kvikmyndaheiminum. Myndin náði svo vel til margra að á endanum var stofnað hálfgerð trúarstefna sem kölluð er dudeism og tileinkuð er lífstíl hans í myndinni. Ég mæli eindregið með að þið skoðið heimasíðu þeirra hér (http://dudeism.com/)

Wednesday, March 30, 2011

Inception


Myndin er um Dorn Cobb sem stundar stuld af afar sérstöku tagi. Hann sérhæfir sig í að stela mikilvægum upplýsingum úr undirmeðvitund manna. Þessi atvinna hefur þó leitt hann á villigötur sem felast í því að hann hefur misst konuna sína og er alþjóðlegur flóttamaður sem sakaður er um að hafa drepið hana og kemst því ekki heim til Bandaríkjanna þar sem börnin hans búa. Hann fær svo verkefni sem felst í því að koma hugmynd fyrir í erfingja stórfyrirtækis. Sá sem ræður hann í verkefnið er Saito, keppinautur í bransanum, sem lofar Cobb að ef hann nær að klára þetta verkefni þá mun hann sjá til þess að hann komist heim til barnanna sinna. Lítið er um persónueinkenni í myndinni og lítið farið inní þeirra persónulega líf fyrir utan Cobb sem er aðalpersóna myndarinnar. Það er lítið um persóunleg sambönd, vonir og efasemdir. Af hverju persónurnar þurfa peninga fyrir verkefnið, hvernig þeir komust í þennan markað og allt í kringum þetta venjulega far sem Hoolywood myndir hafa flestallar eru einfaldlega hunsaðar. T.d. þegar Saito heldur því fram að fyrirtæki Maurice Fischer sé hættulegt fyrir heiminn útaf því að það á of mikið af orkuauðlindum í heiminum er einfaldlega gert ráð fyrir að sé satt. Mögulegar grunsemdir áhorfenda að Saito sjálfur gæti verið hættulegur og er að reyna að útrýma keppinauti sínum kemur aldrei fram í myndinni. Myndin kynnir fyrir okkur aðferðina á hvernig draumasameining fer fram. Eftir byrjunarsenu myndarinnar þar sem Cobb hittir Saito í Limbo, erum við áhorfendur steypt í gegnum nokkur lög af tengslum af draumum. Í raunveruleikanum eru Cobb, Arthur og arkitektinn að dreyma með Saito í lest, en við komumst seinna að því að það er æfing til að reyna á hæfileika Cobb í hugmyndastuldi í draumum. Þeim dreymir í lestinni að þeir séu í íbúð þar sem Satio hittir konuna sína. En í íbúðinni eru þeir í raun að dreyma að þeir séu í lúxushöll Saito þar sem Cobb er að reyna að komast að leyndarmálum Saito. Sú tilraun er skemmd með tilkomu Mal, konu Cobb og draumaheimurinn eyðileggst. Það sem er flókið við þetta ferli er að Christofer Nolan, leikstjóri myndarinnar fer ekki hefðbundna leið í að fara í gegnum lög draumana. Við förum ekki frá íbúðinni í lúxushöllina heldur í staðinn förum við í öfuga átt. Fyrst förum við frá lúxushöllinni í íbúðina og þaðan frá íbúðinni í lestina. Þessi óhefðbundna leið í gegnum draumana er að mínu mati það sem gerir myndina einstaklega skemmtilega. Þótt margir gagnrýni myndina á þeim forsendum að persónurnar séu lítið grandskoðaðar persónulega þá finnst mér það ekki skemma neitt fyrir því flest allar Hollywood myndir rýna mikið í persónulegt líf persónana í myndum sínum og því er mjög fínt að fá öðruvísi mynd sem hunsar það og einblínir meira á spennusenurnar og ,,plott‘‘ myndarinnar og það er mögulega ástæðan fyrir því að myndin er eins vinsæl og hún er.
Christofer Nolan leikstýrði myndinni og gerði handritið að því og tók það hann mörg ár að ljúka við handritið sem sýnir hversu mikla vinnu hann lagði í þessa mynd.

La vita é bella


Myndin gerist í seinni heimsstyrjöldinni og segir sögu Guido, gyðingur sem reynir með öllum ráðum að fanga hjarta Doru sem kemur af stórum ættum. Það tekst á endanum. Síðan er seinna komið við sögu nokkrum árum síðar þegar þau hafa myndað fjölskyldu og hafa eignast son. Þegar þarna er komið við sögu hafa ofsóknir á gyðingum færst í aukana. Einn daginn þegar Guido og sonur hans, Giosué hefja sinn hversdaglega dag í bókabúðinni eru feðgarnir teknir á brott og er sent þá í lest sem á að taka þá útrýmingabúðir gyðinga. Dora, sem er þó ekki af gyðingaættum, vil ekki skilja við fjölskylduna og sannfærir Þjóðverjanna um að taka sig með. Meðan á öllum þessum hörmungum stendur áttar drengurinn sig ekki alveg hvað er að gerast og finnur þá Guido upp snjalla hugmynd til að strákurinn hans fyllist ekki ótta og skelfingu. Það er nefnilega afmælisdagur Giosué. Hann fær son sinn til að halda að þetta sé allt leikur sem hann skipulagði sérstaklega fyrir afmælið hans og að sigurvegarinn í leiknum fái skriðdreka í verðlaun. Hann segir að nasistarnir séu svona strangir því þeir vilja líka vinna skriðdrekann. Síðan skáldar hann upp ýmsar reglur sem drengurinn verður að hlýða til að fá sem flest stig og sá sem er fyrstur að ná 1000 stigum vinnur leikinn.Þegar fram líða stundir fer Giosué að efast en Guido nær alltaf að sannfæra hann um að þetta sé bara leikur. Mér fannst myndin frábær. Hún er fyndin, spennandi og jafnframt mjög sorgleg. Sambandið milli feðgana er einkar skemmtilegt að fylgjast með og það var mjög skemmtilegt að horfa uppá sköpunargleði Guido vitandi að hann gerði allt til að halda stráknum sínum jákvæðum þrátt fyrir erfiða tíma. Það besta við myndina var að mínu mati aðalpersónan, Guido. Guido var fyndin, hugmyndaríkur og ástríðufullur fyrir fjölskyldu sinni og gerir allt fyrir hana. Endirinn á myndinni var frábær en jafnframt mjög sorglegur er við sjáum Guido vera tekinn á brott af þýskum hermanni vitandi að hann verði skotinn. Það stoppar hann ekki í að gleðja strákinn sinn sem felur sig í litlum klefi handan við hornið því hann veit að strákurinn sinn sé að horfa þegar hann apar eftir hermanninum á mjög ýktan og skondinn hátt við mikilla kátínu drengsins áður en hann er tekinn af lífi. Daginn eftir þegar drengurinn kemur út úr klefanum birtist síðan skriðdreki Bandamanna sem hafa hernumið nasistana og heldur drengurinn að þetta séu verðlaunin sem hann og Guido eru búnir að vinna saman að svo lengi.
Það kom engum á óvart þegar myndin fékk óskarinn sem besta erlenda mynd. Það sem þótti þó afar skemmtileg uppákoma á óskarnum var þegar að Roberto Benigni, leikstjóri og aðalleikari myndarinnar tók við verðlaununum en það þótti einkar skrautlegt Einnig fékk hann óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki.

127 hours


127 hours er um Arbn Ralston sem er ungur fjallgöngumaður sem finnst fátt skemmtilegra en að klifra fjöll. Myndin kemur sér beint að efninu og eftir að Ralston er búinn að klifra smá í sprungunum á sléttunum þar sem hann er, þá rennur hann til með þeim afleiðingum að hann fellur niður marga metra og lendir hönd hans undir risagrjóti. Hann reynir að losa sig en það gengur ekki. Restin af myndinni gerist öll á þessum stað þar sem Ralston reynir með öllum ráðum að losa sig á milli þess sem hann tekur upp og lýsir tilfinningum sínum í þessum aðstæðum í myndavélinni sinni.
Áður en ég horfði á þessa mynd þá vissi ég nokkurnveginn hvað hún fjallaði um og óttaðist að hún yrði nokkuð langdreginn þar sem hún gerist mestöll á sama staðnum. Sú var þó ekki raunin. Ástæðan fyrir því er að hluta til hvernig maður nær að lifa sig í ástandið sem hann er í og hvað maður myndi nú sjálfur gera í þessum aðstæðum. Mér fannst þrjú atriði í myndinni standa uppúr. Fyrir það fyrsta var það atriðið þar sem hann minnist gamall og góða stunda í lífi sínu. Þar fannst mér eins og Ralston væri virkilega að átta sig á hversu gott líf hans hafi verið og hvað hann væri til í að upplifa svona minningar aftur. Þessar minningar hafa líka örrugglega átt stóran þátt í þeim lífsvilja sem hann sýnir seinna í myndinni. Annað atrið sem fannst einkar gott er þegar hann sviðsetur spjallþátt á myndavélina sína þar sem hann leikur spyrjanda og er sjálfur aðalgesturinn í þættinum og svarar spurningum um hvernig hann komst í þær aðstæður sem hann var búinn að koma sér í. Þetta atriði var mjög fyndið en einnig svolítið svekkjandi því það var ákveðinn uppgjafartónn og vonleysi í svörum hans þar sem hann mynnti sjálfan sig á hversu heimskulegt það hefði verið að koma sér í þessar aðstæður og láta engann vita hvert hann væri að fara og þar af leiðandi myndi enginn finna hann. Síðast en ekki síst var atriðið þar sem hann sker af sér hendina til þess að að komast burt. Það atriði sýndi einfaldlega hversu langt hann var tilbúinn að ganga til að lifa af. Þetta atriði var mjög ógeðslegt því það var sýnt höndina skerast í sundur og það var mjög átakanlegt. Mér fannst myndin mjög skemmtileg og hélt mér við efnið allan tímann þvert á móti minni spá fyrir myndina.

Tuesday, March 29, 2011

Mat mitt á árinu í kvikmyndagerð

Það sem tókst vel í kvikmyndagerð í ár að mínu mati voru gerðir maraþonmyndana. Það var erfitt en skemmtilegt að taka upp myndina og klippa hana en jafnframt mjög lærdómsrík reynsla. Það sem mér finnst að geti bætt kvikmyndagerðaáfangann er að einbeita okkur aðeins minna á kvikmyndasögunni og þess í stað nota kanski tímann til að fara í tölvustofuna oftar og læra t.d. betur að klippa myndir. Einnig fannst mér klippukerfið sem við fengum til að klippa heimildarmyndina svolítið of flókið og leiðinlegt kerfi, semsagt spurning hvort það sé hætt að annaðhvort að skipta um kerfi eða læra betur á það. Sá hluti sem nýttist mér best í áfanganum var að taka upp bæði maraþonmyndina og heimildarmyndina. Mér finnst einnig að við gætum notum miðvikudagstímana í að horfa ekki alltaf bara á kvikmyndir heldur nota þann tíma t.d. í að æfa okkur í að búa til sögulínur fyrir myndir og læra betur að gera handrit.
Væntingarnar sem ég hafði til námskeiðsins í upphafi var að fá ákveðinn grunn í að gera kvikmyndir, þ.e. skrifa handrit, læra að klippa, leika og svo framvegis. Þær væntingar stóðust en eins og ég er búin að koma á, þá finnst mér að það mætti gera fleiri verkefni á þeim nótum og minnka aðeins við lærdóm í sjálfri kvikmyndasögunni. Það sem ég var einnig ánægður með í áfanganum var þegar íslensku leikstjórarnir komu og veittu okkur innsýn í þeirra starf. Þeir tímar fannst mér mjög áhugaverðir. Það sem mér fannst einnig mætti betur fara var að það ætti ekki alltaf að hafa sömu hópana í myndunum sem við gerum heldur blanda þeim meira milli mynda. Þannig myndi maður læra betur að vinna með mismunandi fólki og heyra mismunandi sjónarmið varðandi gerð myndana. Mér finnst samt bara fínt að sýna allar myndirnar í einu því þá er léttara að bera þær saman og gefa þeim einkunnir. Það fyrirkomulag finnst mér að ætti ekki að breyta. Í sambandi við hvernig ætti að hvetja til meiri og metnaðarfyllri blogg þá finnst mér það sniðug hugmynd að gefa stig fyrir komment á færslunum en þó finnst mér að aðeins ætti að gefa stig fyrir kommentin ef þau eru nógu góð , þ.e.a.s. uppbyggileg gangrýni eða góðar spurningar varðandi færsluna. Annars er ég bara frekar sáttur við þennan áfanga og hvernig hann var uppbyggður.

Saturday, March 26, 2011

Schindler's list


Myndin gerist í Póllandi í seinni heimstyrjöldinni og segir frá Oskar Schindler, kaupsýslumaður, sem er í nasistaflokknum og nýtir sér aðstæður í stríðinu til þess að fá ódýrt vinnuafl, gyðinga. Hann græðir helling á þessari starfsemi og bætir við sig fleiri og fleiri gyðingum sem líta á verksmiðjuna sem himnaríki í samanburði við útrýmingarbúðirnar. Myndin er frá 1993 og er svart-hvít. Myndin er löng en heldur manni við efnið allan tímann og þá ekki síst fyrir frábæran leik Liam Neeson. Leikstjóri myndarinnar er Steven Spielberg og fékk hann óskarinn sem besti leikstjórinn fyrir myndina. Einnig fékk myndin óskarinn fyrir bestu mynd. Steven Spielberg var ekki viss hvort hann hefði þroskan í að stýra myndinni þegar hann fékk boð um það. Hann reyndi þess í stað að fá Roman Polanski og fleiri til að leikstýra myndinni. Polanski hafnaði boðinu þar sem móðir hans hafði dáið í Auschwitz og hann hafði verið í og lifað af gyðingagettóin í Póllandi sjálfur. Spielberg ákvað loks að leikstýra myndinni sjálfur þegar hann byrjaði að hafa áhyggjur að fólk myndi samþykkja aðgerðaleysi gagnvart nýnasistum sem voru að rísa uppá þessum tíma líkt og áður hafði gerst.

Fight Club


Úthugsuð snilld frá David Fincher. Margar leyndar staðreyndir eru mikilvægar í þessari umfjöllun sem fékk mig til að heillast af myndinni, t.d. það að Tyler Durden birtist 7 sinnum í myndinni áður en þeir hittast opinberlega sem sýnir að aðalpersónan(sem aldrei er nefnd nafni) er að skapa Tyler í huganum smátt og smátt áður en þeir hittast. Síðan er mjög áhugavert að fylgjast með samtölum þeirra, þegar maður horfir á myndina aftur, vitandi að þetta sé í raun sami maðurinn að tala við sjálfan sig. Einnig er skemmtilegt að spá í hvað aðalpersónan heitir í raun og veru en margar pælingar hafa komið um það efni af kvikmyndaáhugamönnum um allan heim. Frábærlega vel leikin mynd með mikilli hugsun og góðum endakafla.

Goodfellas


Myndin sem er sannsöguleg og segir frá yngri árum Henry Hill í undirstéttum ítölsku mafíunnar í Bandaríkjunum í gegnum þrjá áratugi, er eitursvöl spennumynd sem er frábærlega vel leikin , sérstaklega af Ray Liotta og Joe Pesci ásamt Robert de Niro. Myndin rýnir mjög vel í starfsemi mafíunnar á þessum tíma og er mjög nákvæm. Traust er mjög mikilvægur hluti í þessari mynd og mér fannst merkilegt hvað persónurnar tengdust mikillum fjölskylduböndum. Um leið og traustið fór á milli þeirra þá fór allt niður á við. Myndin sýnir líka hversu erfitt er að vinna sig upp í ítölsku mafíunni. Mér fannst það líka svolítið fyndið hversu góðu vanir þeir voru þar sem þeir borguðu aldrei fyrir það sem þeir fengu. Samband þeirra Henry og Karen var einnig skemmtilegt að fylgjast með því það var mjög sveiflukennt. Að mínu mati er þetta ein besta mynd sem gerð hefur og sýnir hversu hlutirnir geta breyst snöggt í þessum glæpaheimi.

Shawshank Redemption


Frábær mynd með góðri sögu. Myndin heldur manni við efnið allan tímann þrátt fyrir að vera löng og er dramtísk, spennandi, sorgleg og fyndin á köflum. Það sem mér þótti best við myndina var hvernig Andy Dufresne hélt í vonina í gegnum allt mótlætið sem hann fékk og þolinmæðin sem hann sýndi meðan hann gróf sig úr klefanum í 20 ár var aðdáunarverð. Myndin sýnir einnig hvernig menn geta orðið háðir því að vera í fangelsi eins og kemur fram þegar Brooks vil ekki fara þaðan útaf því að í fangelsinu var hann mikilvægur maður en fyrir utan það var hann einskis metinn og átti engan að. Shawshank Redemption svíkur engan og er frábær í alla staði.

Ocean's eleven


Ocean's eleven segir frá Danny Ocean sem er nýsloppinn úr fangelsi. Stuttu seinna safnar hann 11 manna liði sem hefur það markmið að ræna þremur stærstu spilavítunum í Las Vegas en það reynist vægast sagt hægara sagt en gert. Seinna í myndinni kemur í ljós að það eru ekki aðeins peningarnir sem eru aðalástæðan á ráninu heldur vill Danny fyrst og fremst hefna sín á eiganda spilavítanna þriggja, Benedict sem er í sambandi með fyrrverandi konu hans. Myndin skartar úrvalsleikurunum George Clooney, Matt Damon, Juliu Roberts, Andy Garcia og Bratt Pitt. Það sem mér fannst best við myndina er sú staðreynd að verkefnið virðist algjörlega ómögulegt og hversu vel skipulagða áætlun þeir þurfa að hafa til að ræna spilavítið. Myndin er enn ein rósin í hnappagatið hjá leikstjóranum Steven Soderbergh en hann hefur gert fleiri góðar eins og informant, The good German, og Che svo einhverjar séu nefndar.

Touching the void


Leikin og sannsöguleg heimildarmynd sem segir frá tveimur fjallgöngumönnum sem fara í Perú til að klifra upp fjallið  Siula Grande. Þetta reyndist mun erfiðara en þeir héldu í fyrstu og lenda þeir í allskonar hremmingum á leiðinni niður. Uppbyggingin á myndinni er ´þannig að tekin eru viðtöl við Joe og Simon(fjallgöngumennina) sem segja í mikilli nákvæmni frá þessari reynslu og hvernig þeim leið í þessum aðstæðum og síðan er sagan sviðsett á meðan í leik. Það allrabesta við þessa mynd að mínu áliti er lífsviljinn sem Joe sýnir. Hann gafst aldrei upp í mjög erfiðum aðstæðum, þ.e.a.s. illa fótbrotinn, þreyttur og án matar og vatns.
Leikstjóri myndarinnar, Kevin Macdonald, hefur gert margar góðar myndir á borð við The last king of Scotland og State of play en hann er einnig frábær í að gera heimildarmyndir. Hann fékk óskarinn fyrir heimildarmyndina One day in September árið 2000 og fékk frábæra dóma fyrir Touching the void.