kvikmyndablogg
Tuesday, April 5, 2011
Ace of Spades
Það fyrsta sem ég vil koma fram á er að gerð myndarinnar var einkar skemmtileg í vinnslu og gekk hratt fyrir sig, þá aðallega vegna reynslu okkar úr fyrri kvikmyndaverkefnum. Hugmyndin að myndinni var auðvelt að vinna með og handritsgerð því í auðveldari kantinum. Ásamt því að fara eftir sögulínunni á blaðinu þá fengum við oft líka hugmyndir á meðan töku myndarinnar stóð og pössuðu þær senur vel inní myndina. Dæmi um slíka senu var þegar það kom haglél og við notfærðum okkur það til að sýna hversu geðveik hún(marta, aðalpersónan) var orðin undir lokin á myndinni. Það var líka mjög skemmtilegt að leika í myndinni. Myndatakan var kanski ekki alltaf fullkomin en annars fannst mér allt ganga framar vonum. Við notuðum nýtt klippukerfi í þessari mynd en í hinum verkefnunum og fannst mér það einfalt og skemmtilegt kerfi. Það var t.d. mjög auðvelt að setja tónlist inní myndina og klippa út misheppnaðar tökur. Hljóðið í myndinni virkaði ekki í 2 senum á myndinni þegar við horfðum á hana í tímanum en það virkaði fullkomlega þegar við horfðum á hana kvöldið áður þ.a. ég vona að það lagist. En verkefnið var afar skemmtilegt og það er vel við hæfi að bæta við svona verkefni á komandi misserum í kvikmyndagerð.
Hinar myndirnar sem við sáum voru að mínu mati báðar mjög góðar og það var afar gaman að fylgjast með þeim. Allar myndirnar voru gjörólíkar sem gerði þetta afar fjölbreytt og skemmtilegt.
Mulholland Drive
Mulholland Drive er af mörgum talin vera besta verk leikstjórans David Lynch. Fyrri verk leikstjórans hafa verið lituð af súrrealískum þemum og oftar en ekki tekið fyrir eyðileggingarmátt mannsins á sjálfum sér og hvernig hægt sé að komast að eðli hans með því að upplifa raunveruleikann á huglægan hátt, og þá oftast í formi drauma. Persónurnar eru oft á tíðum sýndar á tvennan hátt, þ.e hvernig þær birtast öðrum eða upplifa sjálfa sig og hvernig þær eru í raun og veru. Hið hreina eðli aðalpersónanna er oftast varpað fram með tilkomu ófreskja sem að uppljóstra því fyrir aðalpersónunni. Sérkenni Mulholland Drive er ólínuleg atburðarás kvikmyndarinnar, þ.e áhorfandinn sjálfur þarf að setja bútana saman til þess að átta sig á merkingu myndarinnar.
Ýmsar túlkanir á kvikmyndinni virðast allar hafa sama útgangspunkt, þ.e að kvikmyndin tekst á við að dulbúa veruleikann og að sýna óstöðugleika mannsins í nútímasamfélagi. Undirmeðvitundin leikur stórt hlutverk í Mulholland Drive, en kvikmyndin er hlaðin táknum og litum sem ómögulegt er túlka til fulls á stuttum tíma. Nóg er að nefna litatvenndina blátt/rautt, en þær andstæður eru margséðar í kvikmyndinni þar sem blátt táknar sannleikann en rautt lygar. Vert að benda á viðbrögð aðalpersónu kvikmyndarinnar, Diane/Betty, þegar hún stendur andspænis litaandstæðunum. Blái liturinn kallar fram í henni sorg og kvíða, en rauður gleði og rósemd. Þessar litaandstæður og viðbrögð aðalpersónanna má finna í nær öllum fyrri verkum Lynch. Mulholland Drive er þó mun flóknari til lesningar en fyrri verk Lynch og verður því að taka öll tákn og allar persónur með í reikninginn til að fá heildarmynd af henni. Þó verður ekki horft fram hjá því að örvænting gagnvart raunveruleikanum og kvíða eru þemu sem að skjóta upp kollinum og gegnsýra öll verk Lynch, og þá sérstaklega Mulholland Drive, þar sem flótti Diane í draumaheim sinn gefur henni engin svör við örvæntingu sinni gagnvart veruleikanum, og dregur hana að lokum til dauða.
Í fyrri hluta Mulholland Drive er áherlsan lögð á samband tveggja kvenna, annars vegar Betty , kanadísk leikkona á leið í leikprufu í Hollywood, og hins vegar Rita , kona sem að missir minnið í bílslysi og endar í lánsíbúð Betty með veski fullt af peningum og bláan lykil sem virðist ekki ganga að neinu. Til að endurheimta minni Ritu rannsaka þau hugsanlega atburðarrás bílslyssins og hefja ástarsamband sín á milli. Í millitíðinni er sagt frá leikstjóranum Adam Kessl er sem að er beittur þrýstingi frá eigendum kvikmyndavers til þess að ráða óþekkta leikkonu, Camillu Rhodes í næstu mynd hans, þá sömu og Betty er send í leikprufu í. Í kjölfar andstöðu hans við þá tillögu upplifir hann hræðilegan dag þar sem framleiðsla kvikmyndarinnar er stöðvuð og eiginkona hans heldur fram hjá honum. Í millitíðinni vindur sagan sér að tveimur mönnum á kaffihúsi, kaupsýslumanni og sálfræðingi hans, á sama stað og martröð kaupsýslumannsins sem hann dreymdi nóttina áður, þar sem hann dreymdi ófreskju fyrir aftan kaffihúsið. Til þess að komast yfir drauminn ganga mennirnir fyrir aftan kaffihúsið þar sem ófreskjan birtist enn á ný. Kaupsýslumaðurinn fær hjartaáfall. Þess að auki vindur sögunni að misheppnuðu leigumorði, framið af dularfullum leigumorðingja. Sagan tekur á sig einstaklega furðulega atburðarrás sem að hámarkast í senu þar sem Betty og Rita koma sér fyrir í súrrealísku leikhúsi að nóttu til þar sem fullyrt er að öll leiksýningin sé blekking, ekkert af henni hafi átt sér stað. Í kjölfarið vaknar Betty í rúmi sínu í allt annarri íbúð, nú undir nafninu Diane og undirbýr sig til að mæta í frumsýningarteiti leyndrar ástkonu sinnar (Rita, nú undir nafninu Camilla Rhodes), í stórhýsi við veginn Mulholland Drive, þar sem bílslysið afdrífaríka hafði átt sér stað. Allar fyrri persónurnar sem höfðu komið fram eru enn til staðar, aðeins í öðrum hlutverkum. Á daginn kemur að Diane hafði raunverulega farið í leikprufu fyrir áðurnefnda kvikmynd, en glatað hlutverkinu í hendur Camillu, en upp úr því myndaðist stutt ástarsamband þeirra á milli. Teitið er í raun haldið til þess að tilkynna trúlofun leikstjórans og Camillu. Við þessa uppljóstrun fær Diane taugaáfall og ræður fyrrnefndan leigumorðingja til þess að myrða Camillu á laun. Fundurinn á sér stað á fyrrnefndu kaffihúsi. Leigumorðinginn afhendir Diane bláan lykil, sem að gengur að bláu boxi og tekur það fram að boxið skuli vera opnað um leið og verkinu er lokið. Í kjölfarið leggur Diane heim á leið og sofnar. Boxið lendir á einhvern óútskýranlegan hátt í hendur hinnar fyrrnefndrar ófreskju og er opnað. Þegar Diane vaknar kemst hún að þessu og fremur sjálfsmorð.
Hvort sem Mulholland Drive er túlkuð sem gagnrýnin samfélagsumræða, sálfræðilegar vangaveltur um tómleika lífsins, eðli huglægrar veruleika eða eintóm súrrealísk hughrif stendur hún uppi sem einstaklega krefjandi og leyndardómsfull bíómynd. Það þarf mörg áhorf til að púsla saman verkinu og mynda heilsteypta mynd af kvikmyndinni. Mulholland Drive er einstök samsuða film-noir kvikmyndagerðar, tónlistar og litanotkunar. Hún er gegnsýrð af heimspekilegum vandamálum og snýr á haus hvernig hinn venjulegi áhorfandi horfir á kvikmyndir. Við fyrsta áhorf er hún ruglingsleg og áhorfandinn skynjar óöryggi, hann er tekinn út úr ramma venjulegs kvikmyndaáhorfs, eins og á svo oft við um kvikmyndir David Lynch. Áhorfandinn fær sömu tilfinningu og Diane/Betty í Mulholland Drive. Hann upplifir kvikmyndaheiminn sem ruglingslegan, án nokkurar kjölfestu og nær ekki að skilja á milli draums og veruleika. Við fleiri áhorf verður hann meðvitaðri og fær brotakennda heildarmynd af kvikmyndinni. Mulholland Drive gefur nýja vídd hvað varðar gerð og greiningu kvikmynda og hefur umbylt hinu venjulega kvikmyndaáhorfi. Hún stendur eftir sem sérstök kvikmyndaráðgáta sem verður líklega aldrei ráðin til fulls.
Thursday, March 31, 2011
Notorious
Myndin er um líf rapparans fræga Christofer Wallace, betur þekktur sem Notorious B.I.G. og fer með áhorfandann í gegnum allt líf hans, allt frá æsku hans, hvernig þessi saklausi skóladrengur frá Brooklyn kom sér í dópheiminn og endaði sem einn besti og frægasti rappari allra tíma. Notorious notaði allar sínar stundir í æsku til að semja texta og sýndi snemma afburðahæfileika í rappkeppnum á götum Brooklyn. Græðgin fyrir peningum og glingri leiddi hann síðan í dópheiminnn þar sem hann seldi ótakmarkað krakk á götunum áður en hann og vinur hans voru teknir af löggunni fyrir ólöglegan vopnaburð. Annarhvor varð að taka á sig sökina og fara í fangelsi fyrir einu byssuna sem löggann fann og tók vinur hans það á sig því Wallace átti meiri möguleika í lífinu í rappheiminum. Eftir þetta atvik tileinkaði Wallace sér rappi og tók sér listamannsnafnið Biggie Smalls eða Notorious B.I.G. og með hjálp Sean Combs, betur þekktur sem P Diddy, tóku þeir rappheiminn undir sig. Þegar á toppinn er komið steðjar hættan að því leiðin liggur aðeins niður af við þaðan. Eftir tryllta skotárás á helsta keppinaut og vin hans, Tupac þá er hann síðan sakaður um að standa á við hana og hefst þá mikill rígur milli þeirra og því myndaðist einnig mikill rígur milli austurstrandarinnar (east side) ,sem Biggie stóð fyrir, og vesturstrandarinnar(west side), sem Tupac stóð fyrir. Eftir að Tupac er síðan myrtur stuttu síðan verður rígurinn mun meiri sem endar með því að Biggie er skotinn til bana í bílnum sínum.
Mér fannst myndin mjög góð og tónlistin í myndinni var væntanlega öll eftir Biggie sem fékk mig til að meta hann mikils sem tónlistarmanns. Nokkur atriði í myndinni stóðu uppúr. Eitt var það þegar Biggie var ennþá á sínum skólaárum og kennarinn sagði honum að ef hann myndi halda svona áfram á þeirri braut sem hann var á myndi hann enda sem sorpumaður. Í næsta tíma sneri Biggie aftur og útskýrði fyrir kennaranum og jafnframt öllum bekknum að sorpumenn fá betri laun og þar af leiðandi yrði hann betur staddur í lífinu en sjálfur kennarinn ef hann myndi enda sem slíkur. Í myndinni var skaðað orðspor rapparans lil kim sem var ekki sátt með gerð þessarar myndar og hvernig hún kom fram í henni.
Mjög góð mynd sem allir rappáhugamenn ættu að kynna sér.
Seven
Myndin er um tvo rannsóknarlögreglumenn, Sommerset og Mills, sem fá það starf fyrir hendur að leita að raðmoringja sem réttlætir gjörðir sínar á þeim grundvelli að fólk sé að hunsa 7 dauðasyndir manna og að hann sé frelsarinn sem fær skilaboð frá Guði til að gera þessar gjörðir. Mills og Sommerset rannsaka málið með tveimur mismunandi sjónarmiðum. Á meðan Sommerset reynir að skilja ástæðuna fyrir morðunum, þá er Mills að reyna að skilja hvað morðinginn er að hugsa og reynir að lesa út hvað hann tekur sér næst fyrir hendur. Myndin er uppbyggð þannig að eitt morð er tekið fyrir í einu og morðinginn hefur skilið eftir skilaboð um hvaða dauðasynd er að ræða. Síðan vinna Mills og Sommerset saman í að rannsaka málið þangað til þeir frétta af öðru morði. Þannig gengur myndin áfram í gegnum allar 7 dauðasyndirnar með svakalegum afleiðingum.
Það sem mér fannst mjög gott við myndina var sambandið á milli Mills og Sommerset en þeir voru mjög ólíkar týpur með mismunandi sjónarmið á hlutunum og í byrjun var sambandið á milli þeirra mjög stormasamt en þegar leið á myndina urðu þeir mun meiri félagar og skildu hvorn annan vel. Sommerset var ungur,æstur og metnaðarfullur meðan Mills var rólegur, yfirvegaður og hokinn af reynslu. Það var því fullkomið hlutverk fyrir Morgan Freeman sem er snillingur að leika áðurnefndan karakter en því er hann alls ekki óvanur. Það sem mér fannst einnig gott við myndina var síðasta morðið þar sem morðinginn notar sjálfan sig sem beitu til þess að tæla Sommerset í að ljúka við ætlunarverk sitt. Þá koma síðustu tvær dauðasyndirnar til sögu, öfund og reiði. Það var mjög átakanlegt atriði.
David Fincher svíkur engann með þessari frábæru mynd sem ég mæli eindregið með.
The Big Lebowski
Mynd fjallar um Jeffrey Lebowski sem kallar sig ,,The dude'' sem er ruglað saman við annan Lebowski sem er milljónarmæringur og sagt honum að borga stóra skuld sem hann veit ekkert um. Þegar The Dude áttar sig á þessum miskilning fer hann á fund með nafna sínum sem vill ekkert skipta sér af þessum málum og rekur hann út. Nokkru seinna fær The dude boð um að snúa til baka til nafna síns. Þar segir hann frá mannráni á konu sinni og sýnir honum miðann sem hann fékk um lausnargjald. Hann fær The dude til að taka að sér að hitta þessa mannræningja með lausnargjaldið og fá konuna sína lausa. The dude fær þá hugmynd í kollinn að kona hans hafi líklega rænt sér sjálf fyrir peningana en fær engu að síður keilufélaga sína sem eru einkar skrautlegir með í þetta verkefni. Þeir ná að klúðra þessu verkefni á afar misheppnaðan hátt og hefst þá stórskemmtileg atburðarrás út restina af myndinni með furðulegum afleiðingum. Mér fannst myndin mjög góð og aðalástæðan fyrir því er aðalpersónan ,, The Dude'' sem Jeff Bridges leikur mjög vel. Það eina sem ,,The Dude'' gerir í lífinu er að slaka á og spila keilu. Fatasmekkurinn hans er mjög furðulegur þar sem hann klæðist náttsloppi sem hann fer aldrei úr. Það skiptir ekki máli hvort hann sé að spila keilu eða er í lífshættu því hann nær alltaf að vera jafn afslappaður.
Myndin fékk ekki góða dóma þegar hún kom fyrst út en með árunum fóru kvikmyndaáhugamenn að sjá gæðin við þessa mynd og er hún nú stimpluð sem ,,költ'' mynd í kvikmyndaheiminum. Myndin náði svo vel til margra að á endanum var stofnað hálfgerð trúarstefna sem kölluð er dudeism og tileinkuð er lífstíl hans í myndinni. Ég mæli eindregið með að þið skoðið heimasíðu þeirra hér (http://dudeism.com/)
Wednesday, March 30, 2011
Inception
Myndin er um Dorn Cobb sem stundar stuld af afar sérstöku tagi. Hann sérhæfir sig í að stela mikilvægum upplýsingum úr undirmeðvitund manna. Þessi atvinna hefur þó leitt hann á villigötur sem felast í því að hann hefur misst konuna sína og er alþjóðlegur flóttamaður sem sakaður er um að hafa drepið hana og kemst því ekki heim til Bandaríkjanna þar sem börnin hans búa. Hann fær svo verkefni sem felst í því að koma hugmynd fyrir í erfingja stórfyrirtækis. Sá sem ræður hann í verkefnið er Saito, keppinautur í bransanum, sem lofar Cobb að ef hann nær að klára þetta verkefni þá mun hann sjá til þess að hann komist heim til barnanna sinna. Lítið er um persónueinkenni í myndinni og lítið farið inní þeirra persónulega líf fyrir utan Cobb sem er aðalpersóna myndarinnar. Það er lítið um persóunleg sambönd, vonir og efasemdir. Af hverju persónurnar þurfa peninga fyrir verkefnið, hvernig þeir komust í þennan markað og allt í kringum þetta venjulega far sem Hoolywood myndir hafa flestallar eru einfaldlega hunsaðar. T.d. þegar Saito heldur því fram að fyrirtæki Maurice Fischer sé hættulegt fyrir heiminn útaf því að það á of mikið af orkuauðlindum í heiminum er einfaldlega gert ráð fyrir að sé satt. Mögulegar grunsemdir áhorfenda að Saito sjálfur gæti verið hættulegur og er að reyna að útrýma keppinauti sínum kemur aldrei fram í myndinni. Myndin kynnir fyrir okkur aðferðina á hvernig draumasameining fer fram. Eftir byrjunarsenu myndarinnar þar sem Cobb hittir Saito í Limbo, erum við áhorfendur steypt í gegnum nokkur lög af tengslum af draumum. Í raunveruleikanum eru Cobb, Arthur og arkitektinn að dreyma með Saito í lest, en við komumst seinna að því að það er æfing til að reyna á hæfileika Cobb í hugmyndastuldi í draumum. Þeim dreymir í lestinni að þeir séu í íbúð þar sem Satio hittir konuna sína. En í íbúðinni eru þeir í raun að dreyma að þeir séu í lúxushöll Saito þar sem Cobb er að reyna að komast að leyndarmálum Saito. Sú tilraun er skemmd með tilkomu Mal, konu Cobb og draumaheimurinn eyðileggst. Það sem er flókið við þetta ferli er að Christofer Nolan, leikstjóri myndarinnar fer ekki hefðbundna leið í að fara í gegnum lög draumana. Við förum ekki frá íbúðinni í lúxushöllina heldur í staðinn förum við í öfuga átt. Fyrst förum við frá lúxushöllinni í íbúðina og þaðan frá íbúðinni í lestina. Þessi óhefðbundna leið í gegnum draumana er að mínu mati það sem gerir myndina einstaklega skemmtilega. Þótt margir gagnrýni myndina á þeim forsendum að persónurnar séu lítið grandskoðaðar persónulega þá finnst mér það ekki skemma neitt fyrir því flest allar Hollywood myndir rýna mikið í persónulegt líf persónana í myndum sínum og því er mjög fínt að fá öðruvísi mynd sem hunsar það og einblínir meira á spennusenurnar og ,,plott‘‘ myndarinnar og það er mögulega ástæðan fyrir því að myndin er eins vinsæl og hún er.
Christofer Nolan leikstýrði myndinni og gerði handritið að því og tók það hann mörg ár að ljúka við handritið sem sýnir hversu mikla vinnu hann lagði í þessa mynd.
La vita é bella
Myndin gerist í seinni heimsstyrjöldinni og segir sögu Guido, gyðingur sem reynir með öllum ráðum að fanga hjarta Doru sem kemur af stórum ættum. Það tekst á endanum. Síðan er seinna komið við sögu nokkrum árum síðar þegar þau hafa myndað fjölskyldu og hafa eignast son. Þegar þarna er komið við sögu hafa ofsóknir á gyðingum færst í aukana. Einn daginn þegar Guido og sonur hans, Giosué hefja sinn hversdaglega dag í bókabúðinni eru feðgarnir teknir á brott og er sent þá í lest sem á að taka þá útrýmingabúðir gyðinga. Dora, sem er þó ekki af gyðingaættum, vil ekki skilja við fjölskylduna og sannfærir Þjóðverjanna um að taka sig með. Meðan á öllum þessum hörmungum stendur áttar drengurinn sig ekki alveg hvað er að gerast og finnur þá Guido upp snjalla hugmynd til að strákurinn hans fyllist ekki ótta og skelfingu. Það er nefnilega afmælisdagur Giosué. Hann fær son sinn til að halda að þetta sé allt leikur sem hann skipulagði sérstaklega fyrir afmælið hans og að sigurvegarinn í leiknum fái skriðdreka í verðlaun. Hann segir að nasistarnir séu svona strangir því þeir vilja líka vinna skriðdrekann. Síðan skáldar hann upp ýmsar reglur sem drengurinn verður að hlýða til að fá sem flest stig og sá sem er fyrstur að ná 1000 stigum vinnur leikinn.Þegar fram líða stundir fer Giosué að efast en Guido nær alltaf að sannfæra hann um að þetta sé bara leikur. Mér fannst myndin frábær. Hún er fyndin, spennandi og jafnframt mjög sorgleg. Sambandið milli feðgana er einkar skemmtilegt að fylgjast með og það var mjög skemmtilegt að horfa uppá sköpunargleði Guido vitandi að hann gerði allt til að halda stráknum sínum jákvæðum þrátt fyrir erfiða tíma. Það besta við myndina var að mínu mati aðalpersónan, Guido. Guido var fyndin, hugmyndaríkur og ástríðufullur fyrir fjölskyldu sinni og gerir allt fyrir hana. Endirinn á myndinni var frábær en jafnframt mjög sorglegur er við sjáum Guido vera tekinn á brott af þýskum hermanni vitandi að hann verði skotinn. Það stoppar hann ekki í að gleðja strákinn sinn sem felur sig í litlum klefi handan við hornið því hann veit að strákurinn sinn sé að horfa þegar hann apar eftir hermanninum á mjög ýktan og skondinn hátt við mikilla kátínu drengsins áður en hann er tekinn af lífi. Daginn eftir þegar drengurinn kemur út úr klefanum birtist síðan skriðdreki Bandamanna sem hafa hernumið nasistana og heldur drengurinn að þetta séu verðlaunin sem hann og Guido eru búnir að vinna saman að svo lengi.
Það kom engum á óvart þegar myndin fékk óskarinn sem besta erlenda mynd. Það sem þótti þó afar skemmtileg uppákoma á óskarnum var þegar að Roberto Benigni, leikstjóri og aðalleikari myndarinnar tók við verðlaununum en það þótti einkar skrautlegt Einnig fékk hann óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki.
Subscribe to:
Posts (Atom)