Tuesday, April 5, 2011

Mulholland Drive


Mulholland Drive er af mörgum talin vera besta verk leikstjórans David Lynch. Fyrri verk leikstjórans hafa verið lituð af súrrealískum þemum og oftar en ekki tekið fyrir eyðileggingarmátt mannsins á sjálfum sér og hvernig hægt sé að komast að eðli hans með því að upplifa raunveruleikann á huglægan hátt, og þá oftast í formi drauma. Persónurnar eru oft á tíðum sýndar á tvennan hátt, þ.e hvernig þær birtast öðrum eða upplifa sjálfa sig og hvernig þær eru í raun og veru. Hið hreina eðli aðalpersónanna er oftast varpað fram með tilkomu ófreskja sem að uppljóstra því fyrir aðalpersónunni. Sérkenni Mulholland Drive er ólínuleg atburðarás kvikmyndarinnar, þ.e áhorfandinn sjálfur þarf að setja bútana saman til þess að átta sig á merkingu myndarinnar.
Ýmsar túlkanir á kvikmyndinni virðast allar hafa sama útgangspunkt, þ.e að kvikmyndin tekst á við að dulbúa veruleikann og að sýna óstöðugleika mannsins í nútímasamfélagi. Undirmeðvitundin leikur stórt hlutverk í Mulholland Drive, en kvikmyndin er hlaðin táknum og litum sem ómögulegt er túlka til fulls á stuttum tíma. Nóg er að nefna litatvenndina blátt/rautt, en þær andstæður eru margséðar í kvikmyndinni þar sem blátt táknar sannleikann en rautt lygar. Vert að benda á viðbrögð aðalpersónu kvikmyndarinnar, Diane/Betty, þegar hún stendur andspænis litaandstæðunum. Blái liturinn kallar fram í henni sorg og kvíða, en rauður gleði og rósemd. Þessar litaandstæður og viðbrögð aðalpersónanna má finna í nær öllum fyrri verkum Lynch. Mulholland Drive er þó mun flóknari til lesningar en fyrri verk Lynch og verður því að taka öll tákn og allar persónur með í reikninginn til að fá heildarmynd af henni. Þó verður ekki horft fram hjá því að örvænting gagnvart raunveruleikanum og kvíða eru þemu sem að skjóta upp kollinum og gegnsýra öll verk Lynch, og þá sérstaklega Mulholland Drive, þar sem flótti Diane í draumaheim sinn gefur henni engin svör við örvæntingu sinni gagnvart veruleikanum, og dregur hana að lokum til dauða.
Í fyrri hluta Mulholland Drive er áherlsan lögð á samband tveggja kvenna, annars vegar Betty , kanadísk leikkona á leið í leikprufu í Hollywood, og hins vegar Rita , kona sem að missir minnið í bílslysi og endar í lánsíbúð Betty með veski fullt af peningum og bláan lykil sem virðist ekki ganga að neinu. Til að endurheimta minni Ritu rannsaka þau hugsanlega atburðarrás bílslyssins og hefja ástarsamband sín á milli. Í millitíðinni er sagt frá leikstjóranum Adam Kessl er sem að er beittur þrýstingi frá eigendum kvikmyndavers til þess að ráða óþekkta leikkonu, Camillu Rhodes í næstu mynd hans, þá sömu og Betty er send í leikprufu í. Í kjölfar andstöðu hans við þá tillögu upplifir hann hræðilegan dag þar sem framleiðsla kvikmyndarinnar er stöðvuð og eiginkona hans heldur fram hjá honum. Í millitíðinni vindur sagan sér að tveimur mönnum á kaffihúsi, kaupsýslumanni og sálfræðingi hans, á sama stað og martröð kaupsýslumannsins sem hann dreymdi nóttina áður, þar sem hann dreymdi ófreskju fyrir aftan kaffihúsið. Til þess að komast yfir drauminn ganga mennirnir fyrir aftan kaffihúsið þar sem ófreskjan birtist enn á ný. Kaupsýslumaðurinn fær hjartaáfall. Þess að auki vindur sögunni að misheppnuðu leigumorði, framið af dularfullum leigumorðingja. Sagan tekur á sig einstaklega furðulega atburðarrás sem að hámarkast í senu þar sem Betty og Rita koma sér fyrir í súrrealísku leikhúsi að nóttu til þar sem fullyrt er að öll leiksýningin sé blekking, ekkert af henni hafi átt sér stað. Í kjölfarið vaknar Betty í rúmi sínu í allt annarri íbúð, nú undir nafninu Diane og undirbýr sig til að mæta í frumsýningarteiti leyndrar ástkonu sinnar (Rita, nú undir nafninu Camilla Rhodes), í stórhýsi við veginn Mulholland Drive, þar sem bílslysið afdrífaríka hafði átt sér stað. Allar fyrri persónurnar sem höfðu komið fram eru enn til staðar, aðeins í öðrum hlutverkum. Á daginn kemur að Diane hafði raunverulega farið í leikprufu fyrir áðurnefnda kvikmynd, en glatað hlutverkinu í hendur Camillu, en upp úr því myndaðist stutt ástarsamband þeirra á milli. Teitið er í raun haldið til þess að tilkynna trúlofun leikstjórans og Camillu. Við þessa uppljóstrun fær Diane taugaáfall og ræður fyrrnefndan leigumorðingja til þess að myrða Camillu á laun. Fundurinn á sér stað á fyrrnefndu kaffihúsi. Leigumorðinginn afhendir Diane bláan lykil, sem að gengur að bláu boxi og tekur það fram að boxið skuli vera opnað um leið og verkinu er lokið. Í kjölfarið leggur Diane heim á leið og sofnar. Boxið lendir á einhvern óútskýranlegan hátt í hendur hinnar fyrrnefndrar ófreskju og er opnað. Þegar Diane vaknar kemst hún að þessu og fremur sjálfsmorð.
Hvort sem Mulholland Drive er túlkuð sem gagnrýnin samfélagsumræða, sálfræðilegar vangaveltur um tómleika lífsins, eðli huglægrar veruleika eða eintóm súrrealísk hughrif stendur hún uppi sem einstaklega krefjandi og leyndardómsfull bíómynd. Það þarf mörg áhorf til að púsla saman verkinu og mynda heilsteypta mynd af kvikmyndinni. Mulholland Drive er einstök samsuða film-noir kvikmyndagerðar, tónlistar og litanotkunar. Hún er gegnsýrð af heimspekilegum vandamálum og snýr á haus hvernig hinn venjulegi áhorfandi horfir á kvikmyndir. Við fyrsta áhorf er hún ruglingsleg og áhorfandinn skynjar óöryggi, hann er tekinn út úr ramma venjulegs kvikmyndaáhorfs, eins og á svo oft við um kvikmyndir David Lynch. Áhorfandinn fær sömu tilfinningu og Diane/Betty í Mulholland Drive. Hann upplifir kvikmyndaheiminn sem ruglingslegan, án nokkurar kjölfestu og nær ekki að skilja á milli draums og veruleika. Við fleiri áhorf verður hann meðvitaðri og fær brotakennda heildarmynd af kvikmyndinni. Mulholland Drive gefur nýja vídd hvað varðar gerð og greiningu kvikmynda og hefur umbylt hinu venjulega kvikmyndaáhorfi. Hún stendur eftir sem sérstök kvikmyndaráðgáta sem verður líklega aldrei ráðin til fulls.

2 comments:

  1. heimildarmaður minn í þessari ritgerð er bróðir minn sem er David Lynch aðdáandi nr. 1

    ReplyDelete
  2. Flott færsla. Nokkuð fróðlegt. 9 stig.

    ReplyDelete